Leitarvélabestun er dálítið eins og að byggja hús – leiðarvísir um tæknilega leitarvélabestun

Leitarvélabestun vefst skiljanlega fyrir mörgum sem eru að reyna að koma vefnum sínum efst í leitarniðurstöður. Ég útskýri mjög oft fyrir fólki hvernig hún virkar og reyni að gera það á mannamál.

En ég sé stundum lífsvilja þeirra þverra (kannski ekki alveg svo dramatískt samt) þegar kemur að tæknilegum atriðum og hvernig þetta hangir allt saman.

Leitarvélabestun - nál í heystakki
Vonandi er þetta ekki vefurinn þinn

Leitarvélabestun er svo margþætt og oftar en ekki flókin að það er stundum erfitt að koma því frá sér hvernig hún virkar í raun. En mig langar virkilega mikið að áhugasamir skilji það nokkurn veginn án þess að endilega vera tölvu- og tæknisnillingar. 

Ég ætla því að grípa til þessarar líkingar; að leitarvélabestun á vef sé eins og að byggja hús, ef húsið er vefurinn. 

“Hvernig kemst ég efst á Google?” er spurning aldarinnar

Margir vita eitthvað smá eftir að hafa sest fyrir framan Google og leitað að “how to get to the top of Google search results?”, sem er góð byrjun. En samtalið leiðist oft út í það hvort leitarvélabestun sé ekki „bara“ að skrifa leitarvélavænan texta með fullt af leitarorðum (e. keywords) eða „bara“ nota WordPress eða „bara“ að setja alt-tags á myndir, o.s.frv.

En hún er því miður ekki svo einföld. Fjölmörg stór og smá atriði þurfa að vera í lagi til að leitarvélabestun geri sem mest gagn.

Svartigaldur og krummi
Þessi er samt ekkert að flækja hlutina

Leitarvélabestun skiptist aðallega í þrjá hluta

 1.       Tæknileg leitarvélabestun (e. technical SEO) – grunnurinn að húsinu.
 2.       Leitarvélabestun vefsvæðis (e. on-site SEO) – Veggir, þak, innanhússlagnir og innréttingar.
 3.       Leitarvélabestun utan vefsvæðis (off-site SEO) – Vegur, heimreið, garður, ljósleiðari, fráveita og gangstétt.

Tilgangurinn með leitarvélabestun er að gera vefinn þinn sýnilegri í lífrænum (e. organic) niðurstöðum í leitarvélum.

Það er svo allt annar handleggur að birtast alveg efst með keyptum auglýsingum á leitarvélum (PPC).

Efri niðurstaðan er keypt auglýsing og sú neðri er lífræn (organic)
Efri niðurstaðan er keypt auglýsing og sú neðri er lífræn (organic)

 

Í þessari grein ætla ég að fara yfir einn mikilvægasta hlutann sem er tæknileg leitarvélabestun. Hvorki meira né minna en grunnurinn að húsinu! Ég reyni að drepa engan úr leiðindum.

Tæknileg leitarvélabestun (technical SEO)

Áður en þið lesið lengra vil ég bara segja að tæknilegi hlutinn er yfirgripsmestur og steiktastur og atriði nr. 2 og 3 eru auðskiljanlegri. Ég ætla að fjalla um þau í annarri grein.

Tæknileg leitarvélabestun er mjög mikilvæg þannig að ekki gefast upp á lestrinum! 

Hér erum við að tala um grunninn að húsinu. Viltu byggja höll eða ömurlegan hundakofa? Ætlarðu að byggja píramída sem stenst tímans tönn eða spilaborg sem hrynur um leið og byrjar að blása? Viltu finnast þegar fólk er að leita að einhverju sem tengist vefnum þínum eða hírast í dimmum afkimum Google þar sem ljósið aldrei skín?

Hatarðu hunda?
“Hatarðu mig?”

Ef grunnurinn að leitarvélabestuninni á vefnum er ekki góður þá er húsið þitt ekki eins stöðugt og það getur verið.

Þú getur vissulega smíðað húsið á lélegum grunni (ég ætla að nota hér tækifærið til að rakka pínulítið niður kerfi eins og Wix og Squarespace) og vesenast í garðinum fyrir allan peninginn (sem er oft ekki lítill peningur) en ekki náð þeim árangri sem þú vilt ná með vefinn.En hvað er tæknileg leitarvélabestun?

Byrjum á byrjuninni og skoðum aðeins hvernig leitarvélar finna vefinn þinn, allar undirsíðurnar á honum og ýmislegt fleira til að birta í leitarniðurstöðum.

Leitarvélar senda út hugbúnað sem kortleggur vefi. Hugbúnaðurinn gengur yfirleitt undir nöfnunum ‘könguló’ (e. spider) eða ‘vélmenni’ (e. robots). Ég ætla að nota orðið ‘könguló’ því mér finnst það skemmtilegra.

En athugið að þetta eru einu köngulærnar í heiminum sem eru vinir ykkar en ekki lítil, ógeðsleg skrímsli með átta lappir. 

könguló og vélmenni
Könguló, vélmenni eða bæði.

Köngulærnar heimsækja vefi reglulega og skríða í gegnum þá.

Markmiðið er að safna gögnum, sem leitarvélarnar nota svo til að ákveða í hvaða sæti síðurnar lenda í leitarniðurstöðum,  samkvæmt ansi flóknum og síbreytilegum reiknireglum sem fólk eins og ég og hinir nördarnir hérna lifir fyrir að pæla í.Köngulærnar fylgja til dæmis hlekkjum og safna upplýsingum um ýmislegt sem fyrirfinnst á vefnum eins og myndir, skjöl o.fl. 

Leitarvélar gera ýmislegar tæknilegar kröfur um það hvernig vefir þurfa að vera úr garði gerðir til að köngulærnar hafi sem greiðastan aðgang að þeim og safni góðum og réttum upplýsingum. 

Ókei, ertu hætt að tala um köngulær?

Nei.

Kröfur leitarvélanna taka stöðugum breytingum, og því þarf að fylgja stefnum og straumum varðandi tæknileg atriði til að uppfylla þær. 

Þannig að, í stuttu máli eftir langa málið: tæknileg leitarvélabestun snýst um það að uppfylla tæknilegar kröfur leitarvéla til þess að gagnasöfnun köngulóa á þeirra vegum gangi sem best.

Leitarvélar elska ekki öll vefkerfi jafn mikið

Vefir eru yfirleitt smíðaðir í einhverskonar vefkerfum og þau eru misgóð. Segja má að vefkerfi sé grunnurinn að vefnum og því er mikilvægt að velja rétt kerfi.

Ég notaði áðan tækifærið til að tala illa um kerfi eins og Wix og Squarespace og það er einfaldlega af þeirri ástæðu að þau skila verri niðurstöðum til leitarvéla en til dæmis WordPress-kerfið.

Einfalt er ekki best í þessu tilfelli

Ég kann alveg að meta einfaldleika Wix og Squarespace og skil fullkomlega hvers vegna fólk velur að nota þau fyrir einfalda og ódýra vefi.

Mér finnst ég samt þurfa að benda á vankantana því það er hundfúlt að eyða tíma í að búa til útlitslega flottan vef og komast síðan að því að maður þarf eiginlega að búa til annan. 

Wordpress er betra fyrir leitarvélabestun
WordPress er heldur ekki svo gríðarlega flókið að læra á

Af öllum vefjum heimsins eru um það bil 33.6% byggðir í WordPress en einungis 1.1 – 1.5% í Wix og Squarespace. Köngulær leitarvéla rata því mjög auðveldlega um WordPress-síður og þekkja uppbyggingu þeirra vel.

Aftur á móti höfum við hjá Svartagaldri ítrekað lent í vandamálum með tæknileg grunnatriði í öðrum kerfum.

Ég er ekki að segja að allir eigi að vera með WordPress-vef því það eru líka fleiri möguleikar í boði en það er mikilvægt að vanda valið.Stundum finnast fallegir vefir ekki í leitarvélum

Við sem vinnum við leitarvélabestun notum ýmis tól til að gera úttektir á vefjum. Tólin notum við meðal annars til að sjá hvort að köngulærnar fallegu lendi í vandræðum við að skilja uppbyggingu þeirra og hvort þær nái að skila góðum og réttum gögnum til leitarvélanna. 

Oftast komum við auga á fjölmörg atriði sem þarf að laga.

Við höfum séð útlitslega flotta vefi með góðu efni sem fundust hreinlega ekki í leitarvélunum vegna þess að tæknileg atriði voru ekki í lagi.

Sem betur fer fyrir viðkomandi fyrirtæki var einfalt að laga þau og skömmu síðar byrjaði umferð frá leitarvélum að koma inn og viðskiptin að glæðast.

Hver eru þessi tæknilegu grunnatriði?

Ég skal gefa ykkur nokkur dæmi um tæknileg atriði í leitarvélabestun. Ég ætla ekki að útskýra þau nánar að þessu sinni en hendi kannski í póst seinna um hvert og eitt atriði.

Sumt af þessu hljómar eins og forn súmeríska þannig að kannski viljið þið bara hlaupa yfir þetta í flýti. Það er auðvitað hægt að Googla atriðin ef þið eruð haldin sjálfspyntingahvöt eða leiðist óhóflega mikið.

Dæmi:

 • Passa að Robots.txt og Sitemap skjöl séu í lagi
 • Passa að ekkert annað hamli köngulóm að skríða um síðurnar sem þið viljið að sjáist í leitarvélunum.
 • Duplicate content / sama efni á mörgum síðum á vefnum eða annars staðar á internetinu.
 • Mixed content / hlekkir vísa á slóð sem er http en er til í https
 • Canonical ekki rétt
 • Redirects ekki rétt
 • Hýsing ekki góð – ath HTTP/2
 • Síðan er hæg
 • Of margar greinar á veftrénu (of djúpur vefur)
 • Munaðarlausar síður
 • Engin Schema.org tögg
 • Brotnir innri linkar (404 errors)
 • Passa að 404 síðan sé hjálpleg
 • Vantar alt-tags á myndir
 • Rangar merkingar á fyrirsögnum (H1, H2, H3 o.s.frv.)
 • Uppbygging vefslóða

Er vefnum mínum viðbjargandi?

Ef þið sitjið nú döpur og lesið þessa færslu, kannski með vef sem finnst ekki í leitarvélunum og eruð óviss með þessi tæknilegu atriði, þá skuluð þið ekki örvænta strax.

Við getum gert úttektir og skýrslur til að koma auga á vandann og ráðlagt ykkur með framhaldið. Stundum bjóða vefkerfin ekki upp á að laga vandamálin en oft er þó hægt að gera eitthvað.

Nýr vefur og rífa húsið
Við viljum helst sleppa við þetta.

Heyrið bara í okkur hjá Svartagaldri ef þið eruð með einhverjar pælingar varðandi leitarvélabestun. Við nördumst í þessu allan daginn og getum auðveldlega metið stöðuna.