Svartigaldur

Hvað er markaðssetning á netinu?

Picture of Lilja Þorsteinsdóttir

Lilja Þorsteinsdóttir

Markaðssetning á netinu er nokkuð vítt hugtak og reynsla mín sýnir að fólk leggur ólíkan skilning í það. Í mínum huga skiptist hún í nokkra hluta sem ég ætla að útlista. Í rauninni segir þetta sig sjálf: vefmarkaðssetning er þegar vara eða þjónusta er markaðssett eftir þeim leiðum sem eru í boði á netinu.

Við hjá Svartagaldri sinnum flestum, ef ekki öllum, sviðum hennar og drögum bara mörkin þegar kemur að markaðssetningu á hefðbundnum miðlum eins og sjónvarpi, útvarpi og á prenti. Við leyfum öðrum algjörlega að sjá um það, enda erum við ekki sérstaklega hrifin af markaðsaðgerðum sem eru illmælanlegar.

Markaðssetning á netinu
“Ég hefði ekki átt að eyða 200.000 kr í auglýsingu í Tálknafjarðartíðindum.”

Við værum auðvitað ekki í þessum bransa ef við teldum ekki markaðssetningu á netinu bera höfuð og herðar yfir hefðbundnari leiðir.

Hér er ekki tæmandi listi yfir hvað telst vera markaðssetning á netinu:

Leitarvélabestun (SEO)

Hvað er markaðssetning á netinu?
Gömul fræðirit um leitarvélabestun

Hin margumtalaða leitarvélabestun, sem margir segjast kunna en fáir gera vel. Það sem virkaði í gær virkar ekki endilega í dag. Það sem virkaði fyrir 5 árum virkar líklega ALLS EKKI í dag.

Í stuttu máli snýst leitarvélabestun um að gera vefinn þinn þannig að leitarvélar elski hann og birti hann sem efst í leitarniðurstöðum þegar einhver leitar að einhverju sem tengist þinni vöru eða þjónustu.

Allir vilja vera efst á Google

Fólk setur upp vef, setur hann á netið, en skilur svo ekki hvers vegna hann finnst ekki í Google. Þá byrjar það að leita að: „Hvernig kemst maður efst í Google?“ og lendir inn á síðu eins og okkar.

Leitarvélabestun
Hvernig kemst maður efst á Google?

Lausnin er blanda af tæknilegum atriðum (technical SEO) á vefnum, sem ég lofa að skrifa grein um seinna, og efninu sem er á vefnum. Oft er hægt að laga tæknilegu atriðin og bæta til dæmis textann á vefnum og það getur skilað fínum árangri.

Leitarvélabestun er ekki skyndilausn

En alvöru leitarvélabestun er langhlaup, ekki spretthlaup. Hún krefst þess að gerð sé ítarleg leitarorðagreining og að náið sé fylgst með vefnum. Úttektir þurfa að vera gerðar reglulega og nýtt og ferskt efni sett inn á vefinn. Ekki hvaða efni sem er samt. Heldur efni sem er skrifað fyrir leitarvélar (og fólk). Sem leiðir mig einmitt að næsta atriði sem helst mjög í hendur við leitarvélabestun:

Efnismarkaðssetning (content marketing)

Efnismarkaðssetning snýst reyndar alls ekki bara um skrifað efni, heldur á líka við um myndir, myndbönd og ýmislegt fleira. Skrifaða efnið snýst líka ekki bara um bloggfærslur, heldur allan texta sem er á vefnum. Það geta verið leiðbeiningar, lendingarsíður, upplýsingar (FAQ), umsagnir og margt annað.

Hvað er markaðssetning á netinu?
Mynd tengist efni ekki beint.

Til að fólk átti sig aðeins betur á efnismarkaðssetningu þá finnst mér oft gott að segja að hún sé notuð til að laða fólk að vefnum án þess að ætlast endilega til að fá neitt í staðinn. Efninu er ætlað til dæmis að fræða fólk eða skemmta því en ekki endilega að selja vöru eða þjónustu.

Dæmi um efnismarkaðssetningu

Hjá pípara gæti efnið til dæmis verið myndband um hvernig á að tappa lofti af miðstöðvarofni. Hjá raftækjaverslun gætu það verið skrifaðar og myndrænar upplýsingar um hvernig sé best að nota vinsælustu tækin eða svör við algengum spurningum.

Auglýsingar á leitarvélum (PPC)

Ef að leitarvélabestun er langhlaup, þá eru auglýsingar á leitarvélum spretthlaup. Í stað þess að vinna í vefnum til að koma honum hærra í leitarvélarnar þá er hægt að stytta sér leið og borga fyrir að vera með efstu leitarniðurstöðuna.

Hvað er þetta PPC?

PPC stendur fyrir „Pay per Click“ og þýðireinfaldlega að þú borgar ákveðna upphæð í hvert skipti sem einhver smellir á auglýsinguna þína og fer inn á vefinn. Þetta er reyndar ekki alveg svo einfalt, og það eru til mismunandi útfærslur á þessu, en við notum oftast „Pé Pé Sé“ sem slangur yfir auglýsingar í leitarvélum!

Markaðssetning á netinu
AHAHAHA, VIÐSKIPTI!! (er með mikinn áhuga á góðum stock-myndum)

Undir það flokkast reyndar líka borðaauglýsingar á „Google display network“ og auglýsingar á Youtube, sem er önnur stærsta leitarvél heims.

Auglýsingakerfin fyrir leitarvélarnar eru býsna flókin og fjöldinn allur af breytum sem þurfa að vera rétt stilltar í kerfinu til að þú borgir ekki allt of mikið fyrir hvern smell. Eða það sem verra er, borgir fyrir „slæma“ smelli frá fólki sem hefur ekki neinn áhuga á vörunni eða þjónustunni sem þú býður.

Auglýsingar á samfélagsmiðlum

Auglýsingar á samfélagsmiðlum er eitt, og umsjón samfélagsmiðla er annað. Virk umsjón með samfélagsmiðlum er vissulega mikilvæg en svo má ekki gleyma því að hægt er að setja upp mjög fjölbreyttar auglýsingar á samfélagsmiðlum líka.

Markaðssetning á netinu

Ég er ekki bara að tala um Facebook.

Við setjum upp auglýsingar á ýmsum samfélagsmiðlum en það fer eftir því hvers konar vöru eða þjónustu við erum að auglýsa. Facebook er auðvitað vinsæll valkostur því hvort sem okkur líkar það betur eða verr er það vinsælasti samfélagsmiðillinn. Nú fyrir utan það að Facebook á líka Instagram og þeir miðlar nota sama auglýsingakerfið.

Minna þekktir samfélagsmiðlar til að auglýsa á

Það er þó ekki þar með upptalið. Þegar við erum að auglýsa út fyrir landsteinana kemur Twitter stundum sterkur inn og Reddit þar á eftir. Nú, eða ef varan eða þjónustan er seld B2B, þá eru LinkedIn auglýsingar oft mjög hentugar. Þar er hægt að auglýsa mjög hnitmiðað (targeted) á hópa eftir til dæmis starfsheitum og í hvaða bransa þeir starfa.

Annað sem tengist markaðssetningu á netinu

Eins og ég sagði áðan þá er þetta hér fyrir ofan ekki tæmandi listi en er samt það sem má kallast daglegt brauð hjá stafrænum markaðsstofum eins og Svartagaldri.

Hvað er markaðssetning á netinu?
Markaðssetning á netinu er langt frá því að vera páfagaukavinna!

Við slæðumst líka inn á annað eins og samstarfsmarkaðssetningu (affiliate marketing), markaðssetningu með tölvupósti (sem er gríðarlega mikilvæg) og svokallaðar „programmatic“ auglýsingar sem ég meika ekki að útskýra. Hringið bara í Þór ef þið viljið vita meira um þær. Kannski hann splæsi í bloggfærslu um Programmatic við tækifæri!

Markaðssetning á netinu – hvers vegna mælum við með henni?

Markaðssetning á netinu
Snúðu vörn í sókn og skerðu þér stærri hluta af kökunni.
  1.       Fyrst og síðast þá elskum við markaðssetningu á netinu því við getum mælt árangurinn. Eiginlega alveg í döðlur, svona oftast. Hvaða manneskja vill ekki vita hvað hún græðir margar krónur fyrir hverja krónu sem hún eyðir í markaðssetningu? Það getur verið ansi erfitt með hefðbundnu miðlunum.
  2.       Markaðssetning á netinu er síbreytileg og ný tækifæri opnast á hverjum degi. Þess vegna er líka fáránlega gaman í vinnunni hjá okkur. Við erum stanslaust að finna nýjar og betri leiðir, deila hugmyndum og betrumbæta. Við smíðum meira að segja okkar eigin kerfi til að auka skilvirkni.
  3.       Það er oft hægt að finna sniðugri og ódýrari leiðir í markaðssetningu á netinu en í hefðbundinni markaðssetningu eftir gömlu leiðunum. Birtingar eru líka mun ódýrari! Veistu hvað þú getur fengið margar birtingar á netinu fyrir sama pening og fólk hendir í dagblöð eða sjónvarpsauglýsingar? Svarið er: Mjög, mjög, mjög margar. Sendu okkur línu og við skulum reikna það út fyrir þig.

Eiga allir bara að gera allt?

Það er þó ekki þar með sagt að við mælum með öllum þessum aðferðum sem ég taldi upp fyrir öll fyrirtæki. Engan veginn! Mismunandi leiðir henda mismunandi fyrirtækjum! Markaðssetning á netinu þýðir ekki að allir eigi að gera allt. Dæmi:

Hvað er markaðssetning á netinu?
Þú vilt ekki endilega reyna allt.

Ef þú ert að selja bláa skó á heimsvísu þá geturðu eiginlega alveg gleymt því að komast ofarlega á leitarvélunum náttúrulega fyrir frasa eins og „blue shoes“. Þannig að leitarvélabestun er ekki besti valkosturinn fyrir þig. PPC-textaauglýsingar eru líka örugglega mjög dýrar fyrir þennan frasa. Þú ættir kannski betri möguleika með hnitmiðuðum auglýsingum á Instagram á þinn markhóp eða með einhverjum allt öðrum stafrænum leiðum.

Komdu þér að efninu, manneskja

Það sem ég er að reyna að segja er: Þótt vefmarkaðssetning geti verið ódýr þá er mjög auðvelt að henda peningnum í vitleysu ef maður þekkir ekki hvern krók og kima. Það borgar sig að tala við sérfræðinga og fá ráðleggingar um það hvernig markaðspeningunum sé best varið á netinu.


Ég vona að þú sért einhverju nær því að skilja um hvað markaðssetning á netinu snýst. Þér er velkomið að hafa samband við mig eða hvern sem er hjá Svartagaldri ef þú hefur spurningar eða vilt fá ráðleggingar.

Markaðurinn

12 Jul 2023

Undirvísitölur neysluverðs í júní

Markaðurinn

9 Jun 2023

Breytt staða Google Ads í nýju persónuverndarlandslaginu

Leitarvélabestun (SEO), SEO

5 May 2023

Fyrsta skrefið í leitarvélabestun: leitarorðagreining

Hellingur af undirsíðum!....bráðum.

info(at)svartigaldur.is
419 8900
eða smelltu hér

Lágmúli 9
108 Reykjavík
460718-0900

Þetta er glænýr vefur & okkur vonar að þér líki vel við hann! Hann er þó enn í vinnslu og við vinnum hörðum höndum að koma honum í loftið.

Hellingur af undirsíðum!....bráðum.

info(at)svartigaldur.is

419 8900

Lágmúli 9

108 Reykjavík

460718-0900

Þetta er glænýr vefur & okkur vonar að þér líki vel við hann! Hann er þó enn í vinnslu og við vinnum hörðum höndum að koma honum í loftið.