Svartigaldur

Fyrsta skrefið í leitarvélabestun: leitarorðagreining

Leitarorðagreining er nauðsynlegur hluti af leitarvélabestun. Í fyrri umfjöllunum mínum um leitarvélabestun hefur komið fram að hún geti verið nokkuð flókið fyrirbrigði, enda eru leitarniðurstöður sveiflóttar og háðar ýmsum reglum sem er miserfitt að hlíta.
Picture of Lilja Þorsteinsdóttir

Lilja Þorsteinsdóttir

Leitarorðagreining er nauðsynlegur hluti af leitarvélabestun. Í fyrri umfjöllunum mínum um leitarvélabestun hefur komið fram að hún geti verið nokkuð flókið fyrirbrigði, enda eru leitarniðurstöður sveiflóttar og háðar ýmsum reglum sem er miserfitt að hlíta.

En eitt er alveg ljóst: Alla leitarvélabestun á að byggja á ítarlegri leitarorðagreiningu!

Auðvitað er mjög mikilvægt að laga tæknilegar villur eins og ég nefni í fyrri greininni en þegar kemur að því að laga til og bæta texta, skipulag og fleira á vefnum er algjörlega nauðsynlegt að skoða fyrst hvaða leitarorð og leitarfrasar eru mikilvægust.

Greinin er pínu löng, ég viðurkenni það, en brotin upp með myndum og fleira þannig að þið ættuð ekki að vera of lengi að renna í gegnum hana! Endilega hafið samband ef ykkur vantar frekari upplýsingar eða hafið athugasemdir. 

Hugtakalisti fyrir ýmislegt tengt leitarvélabestun

Ég biðst fyrirfram afsökunar á því að margt sem ég skrifa um í sambandi við sýnileika á leitarvélum er hálfgert hrognamál, en ég skal setja hérna, ykkur vonandi til glöggvunar, orða- og hugtakalista með útskýringum á því helsta:

 • Leitarorð (e. Keyword): Stakt orð sem fólk slær inn í leitarvél, eins og t.d. ‘kjúklingur’
 • Leitarfrasi (e. Keyphrase / short tail key phrase): Tvö til fjögur orð sem fólk slær inn í leitarvél, eins og t.d. ‘kjúklingur beikon uppskriftir’
 • Langur leitarfrasi (e. Long tail key phrase): Fimm eða fleiri orð, oftar en ekki spurningar, sem fólk slær inn í leitarvél, eins og t.d. ‘kjúklingur og sætar kartöflur í ofni á 200 °c hversu lengi?’
 • Leitarniðurstöður (e. Search engine results page, oftast stytt í SERP): Listinn af vefsíðum sem leitarvélin raðar upp og birtir þér þegar þú leitar, til dæmis:
Leitarniðurstöður
 • Leitarorðagreining (e. Keyword Research): Ítarleg útlistun og flokkun á leitarorðum sem þú vilt að vefurinn þinn sé sýnilegur fyrir í leitarvélum.
 • Sýnileiki (e. Visibility): Í þessu samhengi er átt við hversu oft og mikið vefur birtist í leitarniðurstöðum.
 • Leitarásetningur (e. Search intent): Sorrý, þetta er ömurlegt orðskrípi. Hér er átt við í hvaða tilgangi leitin er framkvæmd. Er manneskjan til dæmis að leita að svörum við spurningu? Vill hún kaupa eitthvað? Google hefur lagt mikla áherslu á þetta síðustu misseri að reyna að birta leitarniðurstöður sem passa við leitarásetning. Ef þú myndir leita að 🌋‘eldgos’🌋 í dag (mars 2021) væri líklegt að þú fengir strax leitarniðurstöður sem tengjast yfirvofandi eldgosi á Reykjanesi þar sem það er hávært í umræðunni og margir að leita að einhverju sem tengist því. Hins vegar ef þú leitar eftir nokkra mánuði gæti leitarvélin metið það sem svo að þinn ásetningur sé að finna almennar upplýsingar um eldgos og þá fengirðu aðra leitarniðurstöðu.
  • Leitarvélar eins og Google áætla leitarásetning út frá mismunandi merkjum (e. Signals) eins og til dæmis:
   • 🎄 Árstíð (vefverslanir gætu verið með meiri sýnileika fyrir jól til dæmis)
   • 💬 Samfélagsumræðu
   • 🌎 Staðsetningu leitanda
   • 🕺 Nethegðun hans og fleira.  
 • Raddleit (e. Voice search): Þegar fólk talar við t.d. símann sinn, Google Assistant, Siri eða álíka í staðinn fyrir að pikka leitina á lyklaborð. 
 • Fjöldi leita (e. Search volume): Mörg leitarorðatól sýna áætlaðan fjölda leita að tilteknu orði eða frasa á mánuði. Það er einstaklega heppilegt að hafa til viðmiðunar þegar verið er að ákveða hvaða leitarorð skal nota. 
 • Bestun (e. Optimization): Hugtakið ‘bestun’ á sér, að ég held, ýmsar stærðfræði- og hagfræðilegar skýringar svo eitthvað sé nefnt. Í tilfelli leitarvélabestunar finnst mér einfaldast að skýra það þannig að verið er að gera breytingar á vef, bæði tæknilega og efnislega, til að hann sé eins vel aðlagaður og mögulegt er til að finnast út frá ákveðnum leitarorðum. 

Leitarorðagreining fyrir leitarvélabestun og fyrir auglýsingar er sitthvor hluturinn

Það er vert að nefna að ef þú ætlar að auglýsa á leitarvélum og “borga fyrir að vera efst á Google” eins og margir skilja það, þá þarftu að gera annars konar leitarorðagreiningu. Með keyptum auglýsingum á leitarvélum borgarðu fyrir plássin, misháa upphæð eftir vinsældum leitarorða og fleiri breytum, og það þarf ekki endilega að vera að þú viljir borga fyrir sömu leitarorð og þú ætlar að leitarvélabesta fyrir.

Þú getur vissulega notað hluta af leitarorðagreiningunni í báðum tilfellum en þarft að huga að mismunandi atriðum.

Hvers vegna er leitarorðagreining mikilvægur hluti af leitarvélabestun og hvað græði ég á henni? 🤷

Einfaldasta svarið er að þú þarft að finna heppilegustu leitarorðin fyrir þinn vef svo hann fái sem mestan sýnileika og vefumferð. Það er ekki nóg að vera með einhverja hugmynd um leitarorðin í kollinum, þú þarft að staðfesta hver þau eru til að fá eins mikla umferð á vefinn og hægt er fyrir viðeigandi orð og frasa. 

💡 Leitarorðagreining hjálpar mér líka ansi oft að fá hugmyndir að efni til að skrifa um fyrir vefi þegar hugmyndaflugið er í fríi.

Ég heyri mjög oft: “Ég HELD að fólk sé að leita að [vöru/þjónustu] og lendi á vefnum mínum.” Oft hefur fólk rétt fyrir sér en stundum ekki. Fólk er stundum búið að eyða orkunni í að skrifa texta og búa til efni fyrir bandvitlaus leitarorð og með því einu að endurskrifa textann með réttari leitarorðum, lagfæra fyrirsagnir og þess háttar nær það talsvert fleirum inn á vefinn og selur meira.

Það borgar sig því yfirleitt alltaf að safna góðum gögnum með leitarorðagreiningu og nota þau til hjálpa við að byggja góða strategíu fyrir leitarvélabestun.

Leitarorðagreining – Skref 1

Að því sögðu þá er það sem betur fer stundum þannig að þú ert sérfræðingur í þínum bransa og ættir að vera með nokkuð góða hugmynd að hverju fólk er að leita sem kemur inn á vefinn þinn út frá leitarniðurstöðum!

Þess vegna er fyrsta skrefið að þú útlistir helstu leitarorðin sem þér dettur í hug að eigi við með. Því næst notarðu leitarorðatólin til að kanna hvort þú hafir haft rétt fyrir þér eða hvort þú ættir frekar að einblína á önnur leitarorð eða leitarfrasa.

Leitarorðagreining – Skref 2

Einnig þekkir þú sennilega samkeppnina vel og átt ekki í erfiðleikum með að útlista samkeppnisaðilana. Þú getur notað tól eins og Ahrefs o.fl. til að sjá fyrir hvaða leitarorð samkeppnisaðilar eru með sýnileika fyrir í leitarvélum! Ertu ekki viss um hvaða fyrirtæki eru í samkeppni við þig? Þá geta tólin líka hjálpað þér að finna út úr því. 

Fyrirvari: Tólin eru frábær en stundum gefa þau ekki alveg nógu góða mynd af leitarorðum á íslensku. Ástæðan er líkast til sú að þau hafa ekki úr nógu miklum gögnum að moða. Þau eiga því erfitt með að tengja saman ákveðin orð, áætla fjölda leita o.s.frv.

Þetta gerir okkur erfiðara fyrir þegar við vinnum fyrir fyrirtæki sem eru með starfsemi á Íslandi. En tólin gefa samt ágætar hugmyndir og eru hjálpleg þótt handavinnan aukist.  

Ef þú sleppir þessum mikilvægu skrefum eru ágætar líkur á að þú lendir á villigötum. Leitarvélabestunin ber þá ekki þann árangur sem hún getur annars borið.

Leitarorðagreining – Skref 3

Notaðu niðurstöður sem þú fékkst úr skrefi 1 og 2 og búðu til lista, til dæmis í Excel. Þar kortleggurðu leitarorðin þannig að auðvelt sé að flokka þau, til dæmis eftir fjölda leita á mánuði og erfiðleikastigi. Einnig er gott að reyna að flokka þau eftir þema.

Tilbúin leitarorðagreining er semsagt þetta skjal með frábærlega flokkuðum og útpældum leitarorðum. Það geturðu haft til hliðsjónar þegar þú hefst handa við leitarvélabestun

Bónusumfjöllun sem enginn bað um: Lestu þetta áður en þú reynir við “erfitt” leitarorð

Það er tvennt sem ég elska við góða leitarorðagreiningu og frábæru tólin sem hægt er að nota í hana. Það það er hægt að sjá hvort og í hversu miklum mæli fólk leitar að orði eða frasa í leitarvélum.

Stundum er líka hægt að sjá áætlað erfiðleikastig. Það er að segja hversu erfitt það er að komast ofarlega í leitarniðurstöður fyrir tiltekið leitarorð.

Þannig er hægt að vega og meta hvort þú viljir leggja í að besta fyrir það tiltekna orð. Nú, eða einbeita þér að einhverju aðeins auðveldara. 

Glaður leitarvélabestari
Mynd af skrifstofunni þegar við fögnum því að hafa náð fyrsta sæti fyrir vinsælt leitarorð

Það er til dæmis frekar galið að ætla að setja upp nýjan vef og gera ráð fyrir að fá fá strax sýnileika fyrir orð eins og “húsgögn”.

Það er von

Hins vegar getur þú bestað fyrir orð eins og “svartur borðstofustóll” og mögulega komist ofarlega í leitarniðurstöðum fyrir það. Einhvers staðar verður maður að byrja.

Seinna meir þegar vefurinn þinn er orðinn þroskaðri, með fleiri hlekki og efni má fara að ráðast á stóru orðin.

Ég er kannski að fara aðeins út fyrir umfjöllun um leitarorð og meira út í almenna leitarvélabestun hér. En það er hreinlega miserfitt að ná árangri fyrir tiltekin leitarorð og mér finnst mikilvægt að vekja athygli á því.

Þú ferð ekki að æfa handbolta og ferð beint á ólympíuleikana.

Samkeppni smamkeppni

Er samkeppnin fyrir leitarorð mikil og vefirnir í efstu sætunum fyrir orðið í leitarvélunum gríðarlega vinsælir, gamlir, með mikinn trúverðugleika, efni, þekkt vörumerki o.s.frv.? Þá er á brattann að sækja að “stela” af þeim sætinu í leitarniðurstöðum.

Það er auðvitað allt hægt ef viljinn, tíminn og peningarnir eru fyrir hendi.

Það verður að segjast eins og er að þetta er auðveldara á Íslandi en í stærri löndum, en það er kannski betra að ráðast ekki strax á garðinn þar sem hann er hæstur.

Þú gætir þurft að rembast í mörg ár við leitarvélabestun, grínlaust. 

Annað (viðbjóðslegt) dæmi um erfið/auðveld leitarorð

Mér dettur í hug erfitt leitarorð að fá sýnileika fyrir: Uppskriftir.

Hvað annað gæti ég bestað fyrir auðveldlega og fengið sýnileika fyrir: Skötuuppskriftir 🤢

Þetta snýst um fjölda leita og fjölda vefja sem eru að keppa um sýnileika fyrir orðið. Það eru augljóslega ekki margir að leita að ‘skötuupskriftir’ árlega EN SAMT einhverjir.

Hins vegar er fjöldi fólks að leita að ‘uppskriftir’ á hverjum einasta degi.  Því eru flestir matarbloggarar landsins að keppast um sýnileika fyrir ‘uppskriftir’. Það er ekkert grín fyrir nýliða í matarbloggi að ætla að komast á blað með þeim.

Leitarniðurstaða fyrir uppskriftir

Ekki gefast upp

Sjáðu samt til. Ef þú leitarvélabestar fyrir fullt af auðveldari frösum og leitarorðum þá færðu a.m.k. þær hræður sem leita logandi ljósi að skötuuppskriftum og öðrum síður vinsælli orðum inn á vefinn.

Safnast þegar saman kemur. Með tíð og tíma, góðu efni og leitarvélabestun, fara leitarvélarnar að sjá að þinn vefur er líka að búa til virði fyrir fólk. Þú munt skríða ofar, nær samkeppninni, fyrir bitastæðu leitarorðin. 

Pro tip fyrir matarbloggara: Ef þú notar tól til að fá hugmyndir að tengdum leitarorðum sérðu að fólk er líka (í alvörunni) að leita að ‘sous-vide skata’. Eins og það sé ekki ónáttúrlegt og viðbjóðslegt. Ég myndi allan daginn nota incognito-mode ef til þess kæmi. En þar væri nú aldeilis hægt að hala inn smá umferð á vefinn þinn.  

Skötuuppskriftir á Google

🪓 Leitarorðagreining og leitarvélabestun – Tól sem við mælum með

Leitarorðatól sem við notum til að sjá meðal annars fjölda leita (search volume), flokka leitarorð, fá hugmyndir að tengdum orðum og við almenna leitarvélabestun:

 • Ahrefs
 • Moz
 • Ekki heldur beint tól, en þú getur leitað á Google til að fá nýjar hugmyndir tengdar leitarorðinu:
Uppskriftir tillögur að leitarorðum

💡 Fleiri góðar greinar um leitarvélabestun og þá sérstaklega leitarorðagreiningu

Markaðurinn

12 Jul 2023

Undirvísitölur neysluverðs í júní

Markaðurinn

9 Jun 2023

Breytt staða Google Ads í nýju persónuverndarlandslaginu

Leitarvélabestun (SEO), Markaðssetning

5 May 2023

Ekki skrá ömurleg lén (í alvörunni!)

Hellingur af undirsíðum!....bráðum.

info(at)svartigaldur.is
419 8900
eða smelltu hér

Lágmúli 9
108 Reykjavík
460718-0900

Þetta er glænýr vefur & okkur vonar að þér líki vel við hann! Hann er þó enn í vinnslu og við vinnum hörðum höndum að koma honum í loftið.

Hellingur af undirsíðum!....bráðum.

info(at)svartigaldur.is

419 8900

Lágmúli 9

108 Reykjavík

460718-0900

Þetta er glænýr vefur & okkur vonar að þér líki vel við hann! Hann er þó enn í vinnslu og við vinnum hörðum höndum að koma honum í loftið.